Samskipti við stjórnvöld
Umsagnir um opinber mál
Samtök ferðaþjónustunnar áttu að venju í miklum samskiptum við stjórnvöld á starfsárinu. Samskiptin hafa m.a. farið fram með formlegum erindum og formlegum og óformlegum fundahöldum, t.d. með erindisrekstri fyrir félagsmenn gagnvart ráðuneytum og stofnunum. Þá eru ótalin ýmis formleg og óformleg samskipti starfsfólks og stjórnar SAF við stjórnmálamenn og stjórnsýsluna.
Mikilvægur þáttur í formlegum samskiptum SAF við stjórnkerfið er að samtökin veita umsagnir um fjölmörg opinber mál árlega. Umsagnir sem SAF veita um mál eru aðgengilegar á vef Alþingis, á Samráðsgátt stjórnvalda og á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga.
Umsagnir sem veittar voru á starfsárinu eru einnig aðgengilegar á vef SAF. Alls sendu SAF inn, í eigin nafni og í samstarfi við önnur samtök, 40 umsagnir, erindi eða minnisblöð til stjórnvalda um frumvörp, reglugerðir, stefnur og fleira. Sjónarmiðum SAF um hin ýmsu málefni hefur því verið komið til skila til stjórnvalda.


Erlent samstarf
Samstarf við systursamtök í Evrópu og á Norðurlöndum
Hluti af starfi Samtaka ferðaþjónustunnar er að bera saman bækur sínar um starfsumhverfi greinarinnar við systursamtök á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Samskipti af þessu tagi eru afar gagnleg þar sem upplýsingar sem þar koma fram nýtast í samræðum og rökfærslum um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi.
Nordisk besöksnäring
SAF eru aðilar að formlegum samstarfsvettvangi hótel- og veitingasamtaka á Norðurlöndum, Nordisk Besöksnäring. Þar eiga sér stað umræður um rekstrarumhverfi fyrirtækja, vinnumarkaðsmál og kjarasamninga, sjálfbærnistefnu o.fl sem SAF geta nýtt sér í samtölum við stjórnvöld. Vorfundur samtakanna var haldinn á Íslandi í febrúar 2024 þar sem framkvæmdastjórar og upplýsingafulltrúar allra norrænu samtakanna hittust á fundum á Iceland Parliament Hotel í Reykjavík. Þá sótti framkvæmdastjóri SAF fundi samtakanna í Svíþjóð í júní og Osló í desember, auk þes sem allir framkvæmdastjórar aðildarsamtaka Nordisk Besöksnäring funduðu í Búdapest í tengslum við fund HOTREC í apríl.
HOTREC
SAF eru formlegur aðili að evrópsku hótel- og veitingasamtökunum HOTREC. Framkvæmdastjóri SAF sótti ársfundi HOTREC sem haldnir voru á Tenerife í apríl og í Brussel í október 2023. Ársfundir HOTREC eru hefðbundið haldnir í formennskuríkjum Evrópusambandsins á hverjum tíma og er áhersla m.a. lögð á að byggja upp gagnkvæma þekkingu og samskipti um málefni ferðaþjónustu við stjórn og embættismannakerfi ESB. Skrifstofa SAF hefur töluverð og regluleg samskipti við skrifstofu HOTREC í Brussel varðandi fjölmörg mál er varða Evrópuregluverk um ferðaþjónustu og áformaðar breytingar á því, m.a. hvað varðar söfnun og miðlun upplýsinga um líkleg áhrif breytinga á félagsmenn SAF á Íslandi.
Nordisk persontransport
SAF eiga miklum samskiptum við systursamtök innan hópbifreiðageirans á Norðurlöndum. Að jafnaði hittast samtökin tvisvar á ári. Á árinu 2024 var fundað í Álaborg í Danmörku og Stokkhólmi þar sem borgarlínuverkefni voru skoðuð og framkvæmd á góðaksturskeppni bílastjóra könnuð. Þessi samskipti eru afar mikilvæg við að tryggja að umhverfi í rekstri hópbifreiða hér á landi sé í samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Þannig er t.d. talsveð umræða i hópnum um fyrirkomulag og eftirlit með gestaflutningum sem og framkvæmd endurmenntunar og meiraprófsnáms í löndunum.
NordPass – Nordisk Passagerarbåt Förening
Samtök ferðaþjónustunnar eru aðilar að samtökum útgerða með farþegaskip og -báta (Nordpass). Samtökin hittast á hverju hausti og var fundið Kaupmannahöfn í lok október 2024. SAF hafa átt í talsverðum óformlegum samskiptum við aðila innan Nordpass og leitað upplýsinga um fyrirkomulag ferjusiglinga, mönnun, öryggisstjórnun, búnað o.fl. sem nýst hafa í samræðum og samskiptum við Samgöngustofu um fyrirkomulag ferjusiglinga hér við land.
Alþjóðlegt samstarf um fræðslu- og menntamál
Samtök ferðaþjónustunnar skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu við tvær svissneskar háskólasamsteypur á starfsárinu sem eiga og reka marga af best metnu hótel- og veitingaskólum heims. Þetta eru annars vegar Sommet Education og hins vegar Swiss Education Group (SEG). Samstarf SAF við þessa aðila er liður í því að auka hæfni og gæði í ferðaþjónustu, fjölga valkostum þeirra sem vilja sækja sér menntun í greininni og styrkja tengsl SAF við erlenda aðila. Þá taka samtökin einnig þátt í Evrópuverkefninu Micro-Credentials sem gengur út á þróun, meðferð og öryggi viðurkenninga fyrir örnámskeið í hótel- og veitingarekstri. Hægt er að kynna sér samstarfið betur hér.













Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Efling hæfni, menntunar og gæða í ferðaþjónustu á forsendum atvinnugreinarinnar
Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir miklum skaða af völdum faraldursins og mikilvægt er að viðhalda og bæta þekkingu og hæfni í greininni.
SAF eiga mikið og gott samstarf í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar en SAF hafa leitt þá vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfnisetursins sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2026. Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk samstarfs við fræðsluaðila, og skóla víða um land.
Á vef Hæfnisetursins má sjá helstu verkefni sem unnið hefur verið að í fræðslumálum greinarinnar á árinu og nálgast verkfærakistu fyrir ferðaþjónustuaðila.
IÐAN fræðslusetur
Samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina
Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR er samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina. Aðild að matvæla- og veitingasviði eiga SAF, Samtök iðnaðarins (SI) og MATVÍS. Hlutverk matvæla- og veitingasviðs er að stuðla að bættri menntun og hæfni starfsmanna í hótel- og matvælagreinum og vinna að auknum gæðum og framleiðni fyrirtækjanna sem leiðir til betri samkeppnisstöðu þeirra og bættra lífskjara.
SAF eiga í samstarfi um ýmis verkefni með IÐUNNI. SAF tilnefna fulltrúa í stjórn og fagráð iðunnar. Meðal verkefna sem samstarf er um er m.a. að tryggja framboð námskeiða, eftirfylgni með fagnámi matvælagreina, eftirfylgni með raunfærnimati í matvæla og veitingagreinum, framþróun í námsframboði í matvælagreinum og öðrum faggreinum ferðaþjónustu, framkvæmd sveinsprófa o.fl.
Einnig eru SAF þáttakandi með Iðunni í Evrópuverkefninu MCEU-Hospitaliy. Verkefnið gengur út að þróa örviðurkenningar fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og hvetja þannig til starfsþróunar og endurmenntunar
Félagsmenn fá um 75% afslátt af námskeiðum matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR og reglur um endurgreiðslur og styrki til félagsmanna er að finna á vef IÐUNNAR.


Áhrif VSK hækkunar á ferðaþjónustu og efnahagslíf
Skýrsla Hagrannsókna sf. um áhrif hugsanlegrar hækkunar VSK prósentu af ferðaþjónustu í 24%
Á bak við þær tölur sem oft er vísað til varðandi VSK á ferðaþjónustu og svonefnda “skattastyrki”, liggur ekkert áhrifamat á raunáhrifum breytingar skattprósentunnar á eftirspurn og samkeppnishæfni, heldur er einungis stuðst við einfalda aðferðafræði um eftirgefnar tekjur (e. revenue forgone method), eins og fjármálaráðuneytið hefur staðfest.
Þetta hafa Samtök ferðaþjónustunnar ítrekað bent á og einnig að hækkun á VSK á ferðajónustu myndi örugglega hafa bein neikvæð áhrif á samkeppnishæfni og eftirspurn og þar með neikvæð áhrif á verðmætasköpun og skatttekjur.
Samtökin óskuðu því eftir því við Hagrannsóknir sf. að nýta hið nýja þjóðhagslíkan með ferðaþjónustugeira sem gert var fyrir Ferðamálastofu til að vinna óháða rannsókn á raunáhrifum slíkrar grundvallarbreytingar á rekstrar- og samkeppnisumhverfi greinarinnar. Sérstaklega var horft til þess að sannreyna hvort þær tugmilljarða skatttekjur sem margir telja að muni skila sér til ríkisins með svona breytingu skili sér í raun og veru.
Niðurstaðan rannsóknarinnar er skýr: Hinar væntu skatttekjur skila sér ekki, og áhrifin á efnahagskerfið í heild eru neikvæð.
Stefnumótun í ferðaþjónustu
Uppfærsla á stefnuramma og aðgerðarbinding
Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 sem lauk í byrjun árs 2023. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis.
Í uppfærðum stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlunin mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum.
Í maí 2023 skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
SAF hafa tekin virkan þátt í vinnunni og m.a. setið í stýrihóp og skipað í vinnuhópa ásamt því að leggja til aðgegni að starfsfólki SAF.
SAF hvetur félagsmenn til að kynna sér stefnuna og aðgerðaráætlun á https://www.ferdamalastefna.is eða á vef Ferðamálastofu.
