Árið 2024 var viðburðarríkt fyrir íslenska ferðaþjónustu svo vægt sé til orða tekið, eldsumbrot og jarðhræringar á Reykjanesi héldu áfram og urðu eldgosin sex talsins á árinu. Kosningar hér heima og fyrir utan landssteinana settu sitt mark á árið, forsetakosningar á Íslandi sem og í Bandaríkjunum og Alþingiskosningar. Alþingi samþykkti í júní tillögu til þingsályktunar sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi ráðherra ferðamála, lagði fram um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Þá var Stöðugleikasamningurinn svokallaði undirritaður á árinu.
Árið fór hægt af stað og nokkuð þungt var yfir á fyrri árshelmingi en svo rættist heldur úr árinu en þó er líklegt að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja verði ekki sú sem vonast var eftir árið 2024. Hækkanir á flestum, ef ekki öllum, kostnaðarliðum fyrirtækja í ferðaþjónustu og hinum ýmsu álögum og gjaldaliðum þyngdu róður þeirra og drógu úr samkeppnishæfni.
Til marks um erfiða samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðlegum mörkuðum er raungengi íslensku krónunnar hátt í sögulegu samhengi, bæði á mælikvarða launa og verðlags. Raungengi m.v. hlutfallslegt verðlag hækkaði um 3,2% að meðaltali árið 2024 frá fyrra ári og m.v. hlutfallslegan launakostnaði um 2,7% að meðaltali árið 2024 milli ára.
Verðbólga var 5,9% að meðaltali árið 2024 og launakostnaður á framleidda einingu hækkaði um 7,3% að meðaltali árið 2024. Verðbólga var heldur lægri en árið 2023 þegar hún var að meðaltali 8,7% og meginvextir Seðlabanka Íslands lækkuðu úr 9,25% niður í 8,5%. Hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, nam 0,5% á árinu 2024 m.v. bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands.
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2024 er áætlaður 8,1% samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum ferðaþjónustureikninga samanborið við 8,2% árið á undan. Á tímabilinu 2016-2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn, nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að jafnaði 8,2%
Þegar litið er til útflutningsverðmæta skapaði íslensk ferðaþjónusta 621 milljarðs króna gjaldeyristekjur árið 2024 eða um 32% af heildarútflutningi vöru og þjónustu landsins, það er um 3% aukning frá fyrra ári m.v. fast gengi ársins 2024.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar skiptast niður í þjónustuviðskipti eftir tveimur flokkum, ferðalög og farþegaflutningar með flugi, það eru tekjur af erlendum ferðamönnum á Íslandi og tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþegar hvort sem það er til og frá Íslandi eða annarsstaðar. Farþegaflutningar með flugi skiluðu um 174 milljörðum króna í útflutningstekjur árið 2024 og ferðalög um 447 milljörðum króna. Hlutur farþegaflutninga var því um 28% og hlutur ferðalaga um 72% af heildarútflutningstekjum af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis.
Erlendir ferðamenn keyptu vöru og þjónustu hér á landi fyrir um 197 þúsund krónur að meðaltali árið 2024, sem er um 2% aukning miðað við árið 2023. Þegar miðað er við einfalt hlutfall útflutningsverðmæta af ferðalögum og heildarfjölda erlendra ferðamanna er um Keflavíkurflugvöll fór á árinu, á föstu gengi ársins 2024.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum stóðu fyrir stærstum hluta af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu árið 2024 eða um 38%, þar á eftir komu Bretar sem næst stærsta einstaka þjóðríkið með tæplega 8% og Þjóðverjar sátu í þriðja sæti með um 7% hlut. Þrjár stærstu viðskiptaþjóðir íslenskrar ferðaþjónustu stóðu því fyrir rúmlega helming af þeim útflutningsverðmætum sem atvinnugreinin skapaði á árinu, líkt og fyrri ár. Ferðamenn frá Asíu stóðu svo fyrir um 6% af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu árið 2024.
Alls komu rúmlega 2,2 milljónir erlendra ferðamanna hingað til lands um Keflavíkurflugvöll í fyrra, það er 14% aukning frá því fyrir heimsfaraldur árið 2019, en um 2% aukning frá árinu 2023. Árið 2024 endaði sem það næst stærsta í sögunni að þessu leytinu til en aðeins einu sinni áður hafa mælst fleiri, metárið 2018 voru brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll rúmlega 2,3 milljónir talsins. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir árið 2024, rúmlega 620 þúsund talsins eða um 27% allra brottfara um Keflavíkurflugvöll, Bretar voru í öðru sæti en voru þeir um 266 þúsund talsins og Þjóðverjar fylgdu fast á eftir og voru um 142 þúsund.
Árið 2024 endaði sem það næst stærsta í sögunni að þessu leytinu til en aðeins einu sinni áður hafa mælst fleiri, metárið 2018 voru brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll rúmlega 2,3 milljónir talsins.
Fjöldi erlendra ferðamanna
Við bætist svo að allnokkur fjöldi gesta sótti landið heim um aðrar gáttir, með skemmtiferðaskipum og Norrænu. Metár var í komum farþega með skemmtiferðaskipum árið 2024 en fjöldi þeirra var um einn milljarður sem er um 2% fjölgun frá fyrra ári. Athuga skal að hver og einn skemmtiferðaskipafarþegi kemur við í fleiri en einni höfn, að meðaltali um þremur höfnum, og því eru komur þeirra mun fleiri en raunverulegur fjöldi farþega. Langflestir farþegar skemmtiferðaskipa koma við í Faxaflóahöfnum og var raunverulegur fjöldi þeirra árið 2024 tæplega 322 þúsund talsins eða um 5% fleiri en árið 2023. Farþegar sem komu til landsins með Norrænu voru svo tæplega 20 þúsund talsins árið 2024 sem nemur um 1% fjölgun frá fyrra ári.
Í alþjóðlegum samanburði hélt erlendum ferðamönnum einnig áfram að fjölga á milli ára og nam fjöldi ferðamanna heimsins um 1,5 milljörðum árið 2024 sem er um 11% aukning frá fyrra ári, samkvæmt gögnum Heimssamtaka ferðaþjónustu, UNWTO. Ísland tekur á móti litlum hlut af ferðamönnum heimsins en árið 2024 nam hlutur erlendra ferðamanna er hingað kom um 0,16% af heimsvísu.
Gistinætur, framboð og nýting hótelherbergja
Samkvæmt fyrstu tölum um gistinætur á árinu 2024 voru þær uppsafnaðar á öllum tegundum skráðra gististaða tæplega 10 milljónir talsins og fjölgaði um 0,3% frá fyrra ári.
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og er því ekki unnt að birta sundurliðun á fjölda gistinátta eftir þjóðerni að svo stöddu. Á meðan unnið er að frekari skoðun á gögnunum verður því tölfræði um gistinætur ekki birt eftir þjóðerni gesta. Rétt er þó að geta þess að ekki er ástæða til að véfengja heildarfjölda gistinátta. Vegna þessa höfum við ekki fjölda gistinátta erlendra ferðamanna og getum ekki áætlað meðaldvalarlengd þeirra út frá gögnum Hagstofu Íslands. Ferðamálastofa birtir hins vegar vísbendingar um dvalartíma ferðamanna út frá landamærakönnunum sem stofnunin framkvæmir á Keflavíkurflugvelli. Þar eru ferðamenn meðal annars spurður út í lengd ferðalagsins um Ísland. Samkvæmt þeim var meðaldvalarlengd ferðamanna að meðaltali 6,4 gistinætur árið 2024 en 6,5 árið 2023, að ágústmánuði undanskildum þar sem það vantar gögn fyrir ágústmánuð 2024.
Meðalfjöldi herbergja á hótelum nam 11.823 árið 2024 og fjölgaði um 3% frá fyrra ári. Höfuðborgarsvæðið stóð fyrir tæpum helming af framboði herbergja á hótelum hérlendis.
Nýting herbergja á hótelum var um 66% árið 2024 að meðaltali yfir landið allt og minnkaði um tæp 4% frá fyrra ári. Nýting hótelherbergja var hæst mæld árið 2017 þegar hún náði að meðaltali 72% yfir árið.
Nýting herbergja á hótelum var heldur lakari heilt yfir árið 2024 miðað við fyrra ár en náði samt sem áður nýjum hæðum í októbermánuði þegar hún var 77% að meðaltali yfir landið.
Launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu
Raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hækkaði um 2,7% frá fyrra ári að meðaltali árið 2024. Í alþjóðlegum samanburði er launakostnaður á Íslandi hár og íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sér í lagi ferðaþjónustufyrirtæki. Raungengi er skilgreint sem hlutfallsleg þróun verðlags eða launakostnaðar á framleidda einingu í heimalandi annars vegar og viðskiptalöndunum hins vegar frá tilteknu grunnári og mælt í sama gjaldmiðli. Samkeppnisstaða innlendra útflutningsatvinnugreina versnaði þar með á milli ára. Aftur á móti er sú staðreynd að launakostnaður sé að hækka meira hér á landi en í helstu viðskiptalöndum ekki ný á nálinni. Á Íslandi hefur það almennt verið svo að laun hérlendis hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist svigrúmi til launahækkana. Það dregur úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi og hefur lagt stein í götu reksturs fyrirtækja.
Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Ísland er hálaunaland sem gerir það að verkum að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Það liggur því augum uppi að atvinnugreinar líkt og ferðaþjónusta, sem vinnuaflsfrekar eru, eiga erfitt uppdráttar í löndum þar sem launakostnaður er hár líkt og raun ber vitni á Íslandi. Enda verða fyrirtæki í ferðaþjónustu að geta boðið samkeppnishæf laun til þess að fá fólk vilji starfa í atvinnugreininni. Tölfræði varðandi laun í ferðaþjónustu hefur verið ábótavant.
Út frá framleiðsluuppgjöri Hagstofu Íslands er hægt að reikna launahlutfall sem er hefðbundinn mælikvarði á skiptingu verðmætasköpunar milli launafólks og fjármagnseigenda. Launahlutfallið segir okkur til um hversu stór hluti verðmætasköpunar rennur til launafólks, var að jafnaði um 61% á Íslandi árið 2024. Framleiðsluuppgjörið er sundurliðað eftir atvinnugreinaflokkun ÍSAT2008 þar sem einkennandi greinar ferðaþjónustunnar eru því miður ekki undir einum hatti en þar eru eftirfarandi ferðaþjónustutengdar greinar hins vegar; flutninga með flugi, rekstur gisti- og veitingastaða og ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og aðra bókunarþjónustu. Árið 2024 var launahlutfallið mun hærra hjá ferðaþjónustutengdum greinum, líkt og fyrri ár, en það sem gengur og gerist að meðaltali hjá atvinugreinum landsins, hjá flutningum með flugi var það um 81%, rekstri gististaða og veitingarekstri um 82% og ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum og annarri bókunarþjónustu um 72%.
Hagstofan birtir samt sem áður staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinahópum, fjölda launagreiðenda og fjölda starfandi einstaklinga þeirra hópa. Hlutur einkennandi greina ferðaþjónustu var um 11,7% af öllum staðgreiðsluskyldum launagreiðslum árið 2024.
Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á hvern starfandi eru töluvert lægri í ferðaþjónustu en þegar litið er til allra starfandi einstaklinga hér á landi. Einfalt hlutfall staðgreiðsluskyldra launagreiðslna og fjölda starfandi einstaklinga reiknast að í ferðaþjónustu voru launagreiðslur á mann að meðaltali um 644 þúsund krónur árið 2024 en 786 þúsund krónur í hagkerfinu öllu. Sjá má hins vegar að launagreiðslur á hvern starfandi hækkuðu meira í ferðaþjónustu en í viðskiptahagkerfinu alls árið 2024 frá fyrra ári m.v fast verðlag árið 2024.
Mannauður íslenskrar ferðaþjónustu
Fjöldi starfandi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu nam rúmlega 31 þúsund árið 2024 það er um 0,2% vöxtur frá fyrra ári.
Mikið hefur verið rætt um hlutverk erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Hlutur starfsfólks með erlendan bakgrunn af fjölda starfandi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu nam 45% árið 2024 og jókst frá fyrra ári þegar hlutfall þeirra var 43%. Hlutur starfsfólks sem er af erlendu bergi brotið af öllum starfandi einstaklingum samkvæmt skrám var um 24% árið 2024 og hækkaði úr 23% árið 2023.
Í samanburði við aðrar útflutningsatvinnugreinar og hið opinbera eru einkennandi greinar ferðaþjónustu með hæsta hlutfall innflytjenda en í sjávarútvegi er það sama hlutfall 39% árið 2024, í atvinnugreinum iðnaðarins er það hlutfall 28% og hjá hinu opinbera 13% árið 2024. Hjá alls starfandi er þetta sama hlutfall 24% árið 2024.
Þegar fjöldi einstaklinga sem starfar í viðkomandi útflutningsatvinnugreinum er skoðaður til samanburðar kemur í ljós að árið 2024 var fjöldi innflytjenda starfandi samkvæmt skrám 14.168 innflytjendur í ferðaþjónustu, 3.205 í sjávarútvegi, 14.253 í atvinnugreinum iðnaðarins og 9.148 innflytjendur hjá hinu opinbera. Alls eru 53.418 innflytjendur sem starfa hjá öllum atvinnugreinum landsins og því ljóst að meginþorri innflytjenda hér á landi starfar í útflutningsatvinnugreinunum okkar.